Körfubolti

Ingibjörg varð að velja á milli körfunnar og námsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir .
Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir . Mynd/Stefán

Það verður ekkert af því að Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir leiki með þýska liðinu Bielefeld Dolphins í þýsku b-deildinni í vetur því samkvæmt frétt á Karfan.is hefur hún ákveðið að taka sér ársfrí frá körfunni. Ingibjörg hefur leikið með Keflavík undanfarin ár en fluttist til Þýskalands með kærasta sínum Loga Geirssyni.

Ingibjörg er að leika einkaþjálfara í fjarnámi auk tveggja áfanga í háskólanum og þurfti að fara heim til Íslands vegna skólans. „Það kom ekki til greina hjá félaginu. Þá stóð mér bara til boða að velja skólann eða körfuboltann," sagði Ingibjörg í samtali við Karfan.is.

Ingibjörg var fyrirliði Keflavíkurliðsins síðustu tvö tímabil og lyfti Íslandsmeistarabikarnum vorið 2008. Hún var með 11,4 stig, 5,8 fráköst og 2,3 stoðsendingar að meðaltali á 26,8 mínútum í deildarkeppninni í fyrra.

"Gamla" lið Ingibjargar saknaði hennar greinilega í fyrsta leik tímabilsins þar sem Bielefeld Dolphins tapaði með 28 stiga mun, 55-83, í fyrstu umferð á móti BG Dorsten.

 












Fleiri fréttir

Sjá meira


×