Leikstjórnandinn Mo Williams hjá Cleveland Cavaliers hefur verið valinn inn í úrvalslið Austurdeildar fyrir stjörnuleikinn sem fram fer í Phoenix á sunnudaginn kemur.
Margir vildu meina að Williams hefði átt skilið að vera í stjörnuliðinu upphaflega, en þjálfararnir sem völdu liðin sáu ekki ástæðu til að velja hann.
Hann hlaut heldur ekki náð fyrir augum David Stern þegar hann valdi varmann inn í stjörnuliðið í stað hins meidda Jameer Nelson hjá Orlando á dögunum.
En allt er þá þrennt er - Williams hefur nú verið valinn sem varamaður inn í stjörnuliðið í stað framherjans Chris Bosh sem einnig meiddist og getur ekki tekið þátt í leiknum.
Cleveland var fyrir þessa ákvörðun eina liðið í einu af fimm efstu sætum NBA deildarinnar sem hafði aðeins einn fulltrúa í stjörnuleiknum.
Smelltu hér til að sjá stjörnulið austurs og vesturs