Írland gæti bætst í hóp þeirra þjóða sem þurfa á aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) að halda. Þetta kemur fram í Financial Times.
Írska stjórnin hefur átt í samningaviðræðum um launalækkanir hjá opinberum starfsmönnum og hefur Brian Cowen aðvarað verkalýðsleiðtoga um að landið þurfi að leita á náðir AGS ef samningar takast ekki.
Þetta staðfestir Cowen samkvæmt Financial Times en hann er nú staddur í Japan í opinberri heimsókn.
Bankageiri Írlands hefur vaxið langt framyfir landsframleiðslu landsins svipað og gerðist hér á Íslandi. Hefur ríkisstjórn landsins margoft þurft að koma bönkum landsins til aðstoðar sökum þessa en nú virðist sem ekki sé hægt að gera meir í þeim efnum.