Það verður vestanátt áfram í dag þannig að öskufall heldur áfram á sömu slóðum, samkvæmt upplýsingum frá sérfræðingi á Veðurstofu Íslands. Öskufallið er mest á Mýrdalssandi, Álftaveri, Meðallandi og í Skaftártungum.
Veðurstofan telur að það gætu orðið truflanir á flugi í Evrópu alla helgina. Vindáttin muni hugsanlega snúast í norður á laugardag. Askan færi þá sunnar og Skandinavía myndi þá kannski sleppa að mestu.
En Veðurstofan segir að í dag verði áfram vestanátt og askan muni því fara áfram yfir Skandínavíu og valda truflunum á flugi. Veðurstofan býst við að það verði truflanir út af lokunum á flugvöllum í Evrópu alla helgina og eitthvað fram í næstu viku.
