Barcelona náði sex stiga forskoti á Real Madrid á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir 3-0 sigur á Deportivo La Coruna á Camp Nou í kvöld.
Bojan skoraði eina mark fyrri hálfleiks á 16. mínútu á yfirvegaðan hátt eftir sendingu frá Xavi í gegnum miðja vörn Deportivo.
Pedro Rodriguez kom Barcelona í 2-0 á 69. mínútu þegar hann nýtti sér klaufaleg útspark markvarðar Deportivo og skoraði nánast frá miðlínu.
Yaya Touré skoraði síðan þriðja markið á 72. mínútu þegar hann var á réttum stað eftir hornspyrnu.
Real Madrid getur minnkað muninn aftur í þrjú stig á morgun þegar liðið sækir Almería heim.
