Zlatan Ibrahimovic segir ekkert hæft í þeim sögusögnum að hann sé á leið frá Barcelona á Spáni.
Zlatan kom til Barcelona frá Inter fyrir ári síðan og hefur mikið verið fjallað um möguleg vistaskipti hans í sumar. Hann hefur helst verið orðaður við Chelsea og Manchester City.
Hann þótti ekki standa undir væntingum á síðasta tímabili og eftir að Barcelona keypti David Villa þótti líklegra að Zlatan væri á leiðinni frá félaginu.
„Ég er leikmaður Barcelona og verð það áfram," er haft eftir honum á heimasíðu Barcelona. „Sögusagnirnar hafa ekki haft áhrif á mig því ég hef aldrei efast um að ég vilji vera hér áfram."
Hann sagði einnig að Pep Guardiola, stjóri Barcelona, hafi sagt sér að hann væri mikilvægur leikmaður í liði Barcelona.
„Ég ætla að halda áfram að vera eins duglegur og ég get til að viðhalda því trausti sem hann hefur sýnt mér," sagði Zlatan.