Fótbolti

Villa: Mun ekkert ákveða fyrr en eftir HM

Ómar Þorgeirsson skrifar
David Villa.
David Villa. Nordic photos/AFP

Framherjinn eftirsótti David Villa hjá Valencia kveðst ekkert ætla að ákveða með framtíð sína í boltanum fyrr en eftir lokakepnni HM næsta sumar.

Villa hefur verið orðaður við flest stærstu félög í heimi en spænsku stórliðin Barcelona og Real Madrid eru sögð vera í bílstjórasætinu hvað varðar að klófesta spænska landsliðsmanninn.

„Ég ætla ekkert að tjá mig um framtíð mína fyrr en eftir HM. Þetta verður án nokkurs vafa sumar breytinga hjá mér en ég vill bara spila áhyggjulaus á HM og einbeita mér hundrað prósent á að standa mig vel fyrir Spán. Sama hvað fjölmiðlarnir skrifa þá er ég bara að einbeita mér að því að spila fótbolta," er haft eftir Villa í spænskum fjölmiðlum í dag.

Talið er að hinn 28 ára gamli framherji muni kosta í kringum 40 milljónir punda en ensku félögin Manchester United, Liverpool og Chelsea munu væntanlega reyna allt sem í þeirra valdi stendur til þess að reyna að sannfæra Villa um að koma frekar til Englands í stað þess að vera áfram á Spáni og fara til Barcelona eða Real Madrid.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×