Körfubolti

Kevin Durant setti nýtt bandarískt stigamet í sigrinum á Litháen

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant.
Kevin Durant. Mynd/AP
Kevin Durant setti nýtt stigamet hjá bandaríska landsliðinu í gær þegar hann skoraði 38 stig í sigrinum á Litháen í undanúrslitaleik keppninnar. Durant bætti metið hans Carmelo Anthony sem var 35 stig.

„Ég hef séð hann skorað svona mikið kvöld eftir kvöld og það kemur mér ekki á óvart hvað hann er að gera hérna, sagði Russell Westbrook liðsfélagi Kevin Durant hjá Oklahoma City í NBA-deildinni.

„Það getur enginn dekkað hann. Hann er þannig í NBA-deildinni og það er eins hér," sagði Eric Gordon um frammistöðu Durant. Hann er búinn að skora 22,1 stig að meðaltali í mótinu en hefur skorað 71 stig í síðustu tveimur leikjum sínum.

Kevin Durant tileinkaði frammistöðu sína minningu um það fólk sem fórst í árásunum á Tvíburaturnannan í New York á þessum sama degi fyrir níu árum.

Kevin Durant var kominn með 17 stig eftir fyrsta leikhlutann og skoraði 24 stig í fyrri hálfleik. Hann hitti úr 14 af 25 skotum sínum þar af 5 af 12 skotum fyrir utan þriggja stiga línuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×