Skoðun

Misjöfnun

Þegar nýr erfingi dönsku krúnunnar var að í þann mund að koma í heiminn, fyrir nokkrum árum síðan, mátti heyra umræðu þar í landi hvort ekki væri rétt að framvegis yrði miðað við elsta barn kóngsins en ekki elsta son, þegar ákveðið skyldi hver ætti að erfa þjóðhöfðingjaembættið. Það væri, jú, misrétti að hin ófædda og fræðilega dóttir krónprinsins myndi ekki geta orðið drottning ef hann eignaðist son síðar á lífsleiðinni. Ranglætið í örlögum þessarar hugsanlegu stúlku, sem síðan reyndist raunar vera drengur var öllum auðséð.

Barátta fyrir jöfnu aðgengi kvenkynsins að arfgengum puntembættum er vissulega dæmi um ákveðna jafnréttisbaráttu, en raunar er mun réttara að tala þar einfaldlega um baráttu fyrir jafnrétti kynjanna sjálfra.

Enda snýst hún að kynin sem slík séu jöfn, fremur en að allir einstaklingar séu jafnir, óháð kyni eða öðru.

Það er auðvitað sjálfsagt markmið að orðin „karl" og „kona" komi helst aldrei fyrir í lagasafninu. En að sjálfsögðu ætti það einnig að vera markmið að orðið „kyn" detti þaðan út líka. Öll þau tilfelli þegar þess er krafist að gæta skuli að þessu eða hinu kynjahlutfalli á framboðslistum, vinnustöðum, stofnunum, námsbrautum eða í stjórnum fyrirtækja geta nefnilega líka leitt til mismununar. Í hvert skipti sem einhver fær vinnu eða hærra sæti á framboðslista en hann eða hún ella hefði fengið, vegna kyns, þá eru menn auðvitað að mismuna einstaklingum, þó svo að jafnaðar milli „kynjanna" sé gætt.

Það er ekki þar með sagt að sértækar aðgerðir í þágu jafnaðar séu gagnslausar. Það má meira en vel vera að sum fyrirtæki, stofnanir eða félagasamtök, sjái hag sinn í því að laga kynjahlutföll með slíkum aðgerðum. Það er ekki nema eðlilegt að leikskólar reyni að laða að unga karlmenn, að verk- og tæknigreinar reyni að auka hlut kvenna og að stjórnmálaflokkar freisti þess að hafa sem jöfnust kynjahlutföll á framboðslistum. Allt þetta er umræddum aðilum sjálfum til góða.

Karlkyns leikskólakennarar skapa börnum fyrirmyndir og geta náð betur til sumra nemenda, blandaðir framboðslistar höfða líklega til fleiri kjósenda og það að fáar ungar konur skrái sig í sumar háskólagreinar er sterk vísbending til kennara í viðkomandi grein um að einmitt meðal kvenna liggi sóknarfærin. En það er farsælast að umræddar stofnanir, fyrirtæki eða samtök hafi sjálf sem mest frumkvæði að slíkum aðgerðum.

Hagsmunirnir geta nefnilega oft togast á. Fleiri konur í verkfræði þýða færri konur í kennslustörfum og ekki er hægt að hafa þær væntingar til þeirra sem mennta nýja kennara að þeir sjái glaðir á eftir þeim fjölmörgu duglegu konum sem nú skrá sig í kennaranám ár hvert.

Öllum má þó vera ljóst að mismunun í þágu jafnaðar sé samt mismunun. Í tveggja ára gömlum jafnréttislögum er raunar tekið fram að svokallaðar sértækar aðgerðir teljist ekki brjóta í bága við lögin. Án slíks ákvæðis er borðliggjandi að umræddar aðgerðir teldust ólöglegar. En þótt til efs sé hvort yfirhöfuð ætti að leyfa slíka sértæka mismunun, þá er það engu að síður ljóst að meginregla jafnréttislaganna er, eða allavega ætti að vera, sú að kyn einstaklinga eigi ekki að skipta þá eða aðra máli. Séu á þessu gerðar undantekningar ættu umrædd úrræði að vera eins afmörkuð, tímabundin og óíþyngjandi og mögulegt er. Því miður virðist þessi túlkun jafnréttislaganna þó ekki vera ríkjandi meðal þingmanna.

Nýverið ákvað Alþingi til dæmis að í fimm manna stjórnum íslenskra fyrirtækja ættu að vera tvær konur og tveir karlmenn. Fyrirtækin sjálf og eigendur þeirra fá svo náðarsamlega að ráða hvort kynið skuli skipa seinasta sætið. Hér er um að ræða eins almenna aðgerð og hugsast getur, ákvæðið er ótímabundið og snýr að öllum fyrirtækjum landsins nema þeim allra, allra minnstu. Þótt allir hafi sína drauma, og um gildi jafnréttis þurfi ekki að deila, ætti þingið að gæta hófs þegar kemur að því að skipa mönnum og konum fyrir varðandi það hver megi og megi ekki sitja í stjórnum félaga og fyrirtækja. En slíkrar hófsemi gætir ekki á Alþingi nú um stundir. Það er miður.

En þótt til efs sé hvort yfirhöfuð ætti að leyfa slíka sértæka mismunun, þá er það engu að síður ljóst að meginregla jafnréttislaganna er, eða allavega ætti að vera, sú að kyn einstaklinga eigi ekki að skipta þá eða aðra máli.






Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×