Eins og meðfylgjandi myndir sýna var gríðarlega góð stemning í Borgarleikhúsinu í gær en þar var opið hús fyrir gesti og gangandi.
Boðið var upp á fjölbreytta skemmtidagskrá og starfsfólk Borgarleikhússins bakaði á staðnum fyrir alla sem vildu dýrindis vöfflur með sultu og rjóma.
Opið hús var í Borgarleikhúsinu í gær. Troðfullt var út úr dyrum og ánægjan skein úr hverju andliti, ungu sem öldnu.
Vel yfir 10.000 manns heimsóttu leikhúsið sitt í gær en viðamikil dagskrá var í boði. Skoðunarferðir leiddu gesti um króka og kima leikhússins, þar sem gengið var í gegnum opnar æfingar á Fólkinu í kjallaranum, Enron, Afanum og Villidýr og Pólítík. Þá var farið í gegnum smíðaverkstæði og búningasafnið.
Þá voru sýnd atriði úr Gauragangi, Harry og Heimi og Horn á höfði meðal annars. Skoppa og Skrítla skemmtu krökkunum en Nýdönsk og Sniglabandið spiluðu fyrir alla aldurshópa. Þá voru trúðarnir úr Jesú litla á vappi.
Allir starfsmenn Borgarleikhússins voru í gestgjafarhlutverki og sást m.a. til Hilmis Snæs, Sigga Sigurjóns, Gísla Arnar, Nínu Daggar, Sveppa og Halldórs Gylfasonar taka á móti gestum.
Þá vakti búningamátun og tæknifikt fyrir börnin mikla kátínu.