Sport

New Orleans Saints er NFL-meistari

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Drew Brees, leikstjórnandi Saints, var valinn maður leiksins.
Drew Brees, leikstjórnandi Saints, var valinn maður leiksins. Nordic Photos/AP

New Orleans Saints vann Ofurskálarleikinn í fyrsta skipti í sögu félagsins í nótt og er því meistari í NFL-deildinni. Saints vann sigur á Indianapolis Colts, 31-17, í leiknum í nótt en Colts var talið vera sigurstranglegra liðið fyrir leikinn.

Colts byrjaði leikinn betur og komst í 10-0. Saints svaraði með tveimur vallarmörkum og staðan 10-6 í hálfleik.

Saints byrjaði síðari hálfleik snilldarlega, vann boltann og skoraði snertimark í sinni fyrstu sókn, 13-10 fyrir Saints.

Peyton Manning, leikstjórnandi Colts, svaraði að bragði með því að keyra sitt lið alla leið og komast aftur yfir, 17-13.

Saints skoraði vallarmark og svo aftur er Jeremy Shockey greip boltann fyrir snertimarki. Saints reyndi svo að skora tvö aukastig sem heppnaðist með naumindum. 24-17 fyrir Saints.

Colts fékk lokasókn til þess að jafna leikinn og redda framlengingu. Þar varð Manning á skelfileg mistök er hann kastaði boltanum í fangið á Tracy Porter, varnarmanni Saints, sem hljóp með boltann alla leið í markið og gulltryggði sigur Saints.

Drew Brees, leikstjórnandi Saints, var magnaður í leiknum en hann kláraði 32 sendingar og jafnaði þar með met Tom Brady. Brees var verðskuldað útnefndur besti maður leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×