Innlent

Lögreglumaður dæmdur í Hæstarétti

Valur Grettisson skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni.

Garðar Helgi Magnússon, lögreglumaður, var dæmdur sekur í Hæstarétti í dag og var því sýknudómi Héraðsdóms Reykjavíkur hnekkt.

Garðar Helgi var ákærður fyrir að fyrir brot í opinberu starfi og líkamsárás með því að hafa að morgni sunnudagsins 18. janúar 2009 farið offari við framkvæmd lögreglustarfans og ekki gætt lögmætra aðferða.

Í ákæruskjali sagði að hann hefði, sem stjórnandi lögregluaðgerðar, fyrirskipað öðrum lögreglumanni að aka með handtekinn mann, fæddum 1987, frá Austurstræti út á Granda í Reykjavík þar sem maðurinn var skilinn eftir. Sjálfur sagði hann fyrir rétti að maðurinn hefði verið með ólæti og honum hefði verið ekið þangað í því skyni að róa hann niður.

Þá á lögreglumaður að hafa á leiðinni út á Granda þrýst hné sínu á háls mannsins þar sem hann lá handjárnaður í tökum lögreglu á maganum á gólfi lögreglubifreiðar. Maðurinn hlaut marbletti aftan á hálsinn vegna aðfara lögreglunnar. Hann var sýknaður af þeim lið.

Í dómi Hæstaréttar segir hinsvegar að Garðar hefði verið sakfelldur fyrir að hafa farið offari við framkvæmd lögreglustarfa og ekki gætt lögmætra aðferða. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að það sé mælt fyrir um að handtekinn maður sé færður á lögreglustöð eða annan stað þar sem lögregla hefur aðstöðu. Eigi þetta við ef honum sé ekki þegar sleppt.

Garðari var aldrei vikið úr starfi á meðan málið fór sína leið í dómskerfinu. Þá er óvíst hvort honum verði vikið úr starfi úr þessu en hann starfar sem lögreglumaður hjá Ríkislögreglustjóra.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að haldi Garðar skilorð í tvö ár skal refsing falla niður frá uppkvaðningu dómsins.

Eldri fréttir af málinu má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×