Cristiano Ronaldo skoraði þrennu í 4-1 útisigri Real Madrid á Real Mallorca í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Real Madrid er því áfram aðeins einu stigi á eftir Barcelona þegar tvær umferðir eru eftir.
Aritz Aduriz kom heimamönnum í Real Mallorca yfir eftir 16 mínútur en Ronaldo svaraði með þremur mörkum áður en Gonzalo Higuain innsiglaði sigurinn.
Þetta er annar leikurinn í röð sem Cristiano Ronaldo kemur sínum mönnum til bjargar en um síðustu helgi skoraði hann sigurmark liðsins á móti Osasuna á síðustu mínútu leiksins.
