Körfubolti

Helena í hópi 45 bestu háskólaleikmanna Bandaríkjanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir gengur hér af velli eftir tap í síðasta leik tímabilsins.
Helena Sverrisdóttir gengur hér af velli eftir tap í síðasta leik tímabilsins. Mynd/AP
Helena Sverrisdóttir fékk mikla viðurkenningu í gær þegar Fréttastofan Associated Press valdi úrvalslið ársins í bandaríska háskólaboltanum. Helena var í hópi þeirra leikmenn sem voru næstir því að komast inn í úrvalsliðin þrjú.

Viðurkenningin heitir á ensku "All-America honorable-mention" en fimmtán bestu leikmenn landsins komast í úrvalsliðin þrjú en næstu þrjátíu leikmenn fá síðan þessa sérstöku viðurkenningu. Helena er því í hópi 45 bestu háskólaleikmanna Bandaríkjanna sem er mikill heiður fyrir hana.

Helena átti mjög gott tímabil með TCU liðinu sem vann deildarkeppni Mountain West en náði ekki að fylgja því eftir í úrslitakeppni Mountain West eða úrslitakeppni NCAA. Helena fékk engu að síður náð fyrir augum valnefndarinnar.

Helena leiddi TCU-liðið í bæði stoðsendingum (5,2 í leik) og stolnum boltum (2,2) og hún var í öðru sæti í liðinu í stigaskori (13.5) og fráköstum (6,5). Helena gaf alls 161 stoðsendingu á tímabilinu og hafa aðeins tveir leikmenn í sögu skólans náð að gefa jafnamargar stoðsendingar á einu ári.

Helena er ennfremur þriðja leikmaðurinn í sögu TCU sem fær svona viðurkenningu frá Associated Press en hinar tvær, Sandora Irvin og Adrianne Ross, voru báðar valdar inn í WNBA-deildina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×