Fyrrum Eurovision-farinn Páll Óskar Hjálmtýsson er hafsjór af fróðleik um keppnina. Hann hefur kynnt sér þátttakendur í ár í þaula eins og kom fram í frábæru þáttunum Alla leið.
Það er því góðs viti að fá bjartsýna spá frá Palla fyrir laugardagskvöldið en hann spáir Heru Björk í eitt af efstu fimm sætunum.
Hann telur jafnvel möguleika á því að Hera vinni keppnina. „Ég skal lofa þér því, Íslendingar eiga eftir að upplifa annað móment eins og þegar Selma Björns keppti 1999. Hún verður í fyrsta sæti á tímabili. Þetta verður síðan reipitog milli hennar og sæta ísraelska gæjans. Svo endar hún í öðru eða þriðja sæti. Á topp fimm," segir Páll Óskar.
Þetta kom fram í spjalli Rúnars Róbertssonar við Pál Óskar á Bylgjunni í dag. Viðtalið má heyra hér.
Þarna kynnti hann einnig árlegt Eurovision-partýið sitt á Nasa á laugardagskvöld eftir keppni. Þar segir hann miklu skemmtilegra að vera en á sjálfri keppninni í Noregi. Á laugardaginn ætla Sigga Beinteins og Sissa að syngja Nei eða já, Jógvan Hansen að spila á fiðlu og taka Fairytale og Jóhanna Guðrún að syngja Is It True?
