Barcelona hefur keypt sóknarmanninn David Villa frá Valencia fyrir 40 milljónir evra. Þetta var tilkynnt á heimasíðu Barcelona í dag.
Gengið var frá samningum í dag og verður Villa kynntur formlega sem leikmaður Barcelona á blaðamannafundi á föstudaginn, eftir að hann gengst undir læknisskoðun.
Villa mun skrifa undir fjögurra ára samning með möguleika á að framlengja samninginn í eitt ár til viðbótar.
Villa er 28 ára gamall og hefur verið á mála hjá Valencia í fimm ár. Á þeim tíma hefur hann skorað 107 mörk í 166 deildarleikjum. Hann er einnig lykilmaður í spænska landsliðinu.
Talið er líklegt að Thierry Henry fari frá Barcelona í sumar og þá líklega til Bandaríkjanna. Óvíst er hvort koma Villa geri það að verkum að Zlatan Ibrahimovic verði einnig seldur frá félaginu.