Körfubolti

Jakob sjóðhitnaði í upphafi fjórða leikhluta en það dugði ekki Sundsvall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson og félagar eru einu tapi frá sumarfríi.
Jakob Örn Sigurðarson og félagar eru einu tapi frá sumarfríi. Mynd/Daníel
Jakob Örn Sigurðarson og félagar í Sundsvall eru komnir upp að vegg í átta liða úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta eftir 67-75 tap fyrir Uppsala á heimavelli í gær. Uppsala er þannig komið í 2-1 og vantar aðeins einn leik til þess tryggja sér sæti í undanúrslitunum.

Jakob Örn Sigurðarson var með 20 stig, 2 stoðsendingar og 2 stolna bolta í leiknum og var stigahæstur hjá Sundsvall-liðinu. Jakob hitti úr 7 af 17 skotum sínum þar af 4 af 11 fyrir utan þriggja stiga línuna.

Jakob var óstöðvandi á fyrstu tveimur og hálfri mínútu fjórða leikhlutans þegar hann skoraði ellefu stig á aðeins 152 sekúndum. Jakob kom þar sínu liði yfir á ný í leiknum en það dugði þó ekki því Uppsala var sterkara á lokamínútum leiksins.

Sundsvall byrjaði betur og var 18-17 yfir eftir fyrsta leikhluta og 35-30 yfir í hálfleik. Það gekk hinsvegar ekkert í þriðja leikhlutanum sem Uppsala vann 23-14 og komst fjórum stigum yfir fyrir lokaleikhlutann, 49-53.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×