Þinghald yfir Þorvarði Davíð Ólafssyni verður lokað. Dómari í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaði um þetta í morgun. Þorvarður Davíð er ákærður fyrir tilraun til manndráps þegar hann réðist á föður sinn, tónlistarmanninn Ólaf Þórðarson, í nóvember á síðasta ári.
Guðrún Sesselja Arnardóttir, lögmaður og réttargæslumaður Ólafs, segir að þau hafi tekið undir kröfu verjanda um lokað þinghald. „Það var gert í samráði við fjölskylduna, eiginkonu hans og son," segir Guðrún.
Við þingfestingu málsins var farið fram á þriggja milljóna króna miskabætur, og féllst Þorvarður Davíð á þá kröfu. Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa haft kókaín í förum sínum. Verjandi óskaði eftir því við þingfestinguna að þinghaldið yrði lokað og var afstaða til þeirrar beiðni tekin í morgun.
Þorvarður hefur játað að hafa ráðist á föður sinn á heimili hans. Ólafur liggur enn meðvitundarlaus á sjúkrahúsi. Þorvarður tók ekki afstöðu til sakarefnanna í réttarsalnum. Þorvarður hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan árásin átti sér stað. Það var framlengt í dag til 7. mars.

