Körfubolti

Óvænt tap hjá Sundsvall Dragons

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli
Hlynur Bæringsson og Jakob Sigurðarson náðu sér ekki á strik þegar að Sundsvall Dragons, topplið sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta, tapaði óvænt fyrir Jämtland Basket á heimavelli í kvöld, 61-74.

Sundsvall er þó með fimm stiga forystu á næsta lið, LF Basket, en liðið á alls þrjá leiki í þessari viku og mætir næst sterku liði Norrköping á heimavelli á miðvikudagskvöldið. Á föstudaginn fer svo Sundsvall til höfuðborgarinnar og mætir 08 Stockholm.

Þetta var aðeins annað tap Sundsvall á heimavelli í vetur. Jakob skoraði tíu stig í leiknum en nýtti aðeins eitt af sex þriggja stiga skotum sínum. Þar að auki tók hann fimm fráköst.

Hlynur skoraði aðeins þrjú stig í leiknum og nýtti eitt af sex tveggja stiga skotum sínum og klikkaði svo á báðum þriggja stiga tilraununum sínum. Hann tók þó tíu fráköst í leiknum og gaf þrjár stoðsendingar.

Jämtland er í áttunda sæti deildarinnar, heilum 28 stigum á eftir Sundsvall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×