Körfubolti

Flottur leikur Jóns Arnórs dugði ekki til

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Mynd/Heimasíða CB Granada
Jón Arnór Stefánsson er kominn aftur á fullt með CB Granada eftir hnémeiðslin og átti frábæran leik í 19 stiga tapi á útivelli á móti hinu sterka liði Cajasol, 82-63, í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í dag.

Jón Arnór skoraði 17 stig á 26 mínútum í leiknum, hitti úr 5 af 11 skotum sínum og úr öllum fimm vítunum. Hann hefur aðeins einu sinni skorað fleiri stig í einum leik á þessu tímabili.

Jón Arnór var með átta stig í hálfleik og skoraði alls 9 stig í þriðja leikhlutanum. Staðan í hálfleik var 34-34 eftir að Granada hafði náð fimm stiga forystu í öðrum leikhlutanum. Cajasol var með fimm stiga forskot fyrir lokaleikhlutann þar sem liðið var með mikla yfirburði og vann hann 23-9.

Þetta var fjórði leikur Jóns Arnórs eftir að hann snéri aftur eftir meiðslin og hann hefur hækkað stigaskor sitt í þeim öllum. Jón Arnór hafði skorað 12 stig í síðasta leik sem Granada vann og hafði gefið sér smá von um að bjarga sér frá falli.

Staða Granada er hinsvegar slæm á botni deildarinnar með aðeins 4 sigra í 23 leikjum en liði tapaði öllum sex leikjum sínum á meðal Jón Arnór var frá vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×