Ríkissaksóknari hefur ákveðið að áfrýja til Hæstaréttar dómi héraðsdóms yfir Gunnari Rúnari Sigurþórssyni sem myrti Hannes Þór Helgason í ágúst á síðasta ári. Héraðsdómur úrskurðaði Gunnar Rúnar ósakhæfan og dæmdi hann til vistunar á Sogni.
„Vegna sérstöðu málsins borið saman við önnur mál þar sem deilt hefur verið um sakhæfi telur ríkissaksóknari rétt að áfrýja málinu til Hæstaréttar til endurskoðunar á héraðsdómi,“ segir í tilkynningu frá Ríkissaksóknara. „Má þar nefna að ákærði skipulagði verknaðinn með löngum fyrirvara, ákæruvaldið telur að orsakasamhengi á milli ástands ákærða og verknaðar sé óljóst og að lýsingar á háttsemi ákærða í skýrslum geðlækna og hans eigin framburði sé ekki í fullu samræmi við þær skilgreiningar sem byggt er á,“ segir ennfremur.
Ríkissaksóknari áfrýjar því málinu í því skyni að Gunnar Rúnar veði sakfelldur í samræmi við ákæru og hann dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.