Körfubolti

Helena og félagar töpuðu úrslitaleiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helena á fullu í leiknum í nótt.
Helena á fullu í leiknum í nótt. Mynd/AP
Helena Sverrisdóttir tókst ekki að vinna titil á sínu lokaári í bandaríska háskólaboltanum en TCU tapaði nótt fyrir Utah í úrslitum Mountain West-deildarinnar.

Leikurinn var framlengdur en á endanum vann Utah fimm stiga sigur, 52-47.

Utah skoraði aðeins tólf stig í síðari hálfleik sem er það lægsta sem hefur verið skorað í sögu úrslitakeppninnar í þessari deild.

TCU var tíu stigum undir í hálfleik en náðu að berja frá sér í þeim síðari og komast yfir, 38-37, þegar tæpar fjórar mínútur voru til leiksloka.

Liðin skiptust á að vera í forystu síðustu mínúturnar en á endanum jafnaði TCU metin þegar níu sekúndur voru eftir og því framlengt.

„Við vildum byrja vel í leiknum,“ sagði Helena í viðtali á heimasíðu síns liðs. „Það gerðist ekki en mér fannst þetta ganga ágætlega hjá okkur í seinni hálfleik.“

TCU byrjaði ágætlega í framlengingunni en svo tók Utah öll völd og kláraði leikinn á 10-2 spretti og vann þar með sinn fjórða meistaratitil í deildinni.

Það kemur í ljós á mánudagskvöldið hvort að TCU verði boðið að keppa í stóru keppninni, sjálfri NCAA-úrslitakeppninni sem oftast er kölluð March Madness. Það er vissulega óskandi að Helena fái tækifæri til að kveðja sitt lið á því stóra sviði.

Helena var með alls tíu stig í leiknum en hún tók þar að auki átta fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Hún stal boltanum tvívegis en tapaði honum alls þrisvar í leiknum.

Skotnýting hennar var ekki upp á sitt besta en alls hitti hún úr þremur af ellefu skotum sínum í leiknum, þar af einu af fimm þriggja stiga skotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×