Körfubolti

Helena átti stórleik og spilar í fyrsta sinn til úrslita með TCU

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helena sækir að varnarmanni New Mexico í leiknum í nótt.
Helena sækir að varnarmanni New Mexico í leiknum í nótt. Mynd/AP
Helena Sverrisdóttir átti frábæran leik þegar að TCU tryggði sér sæti í úrslitaleiknum um meistaratitilinn í Mountain West-deildinni í bandaríska háskólaboltanum í nótt.

TCU lagði New Mexico, 61-40, í undanúrslitunum í nótt og skoraði Helena 25 stig í leiknum. Hún var allt í öllu í sóknarleik liðsins og nýtti alls átta af þrettán skotum sínum í leiknum utan af velli.

Hún tók sjö fráköst, gaf fimm stoðsendingar og stal boltanum einu sinni á þeim 32 mínútum sem hún lék í leiknum.

Sigur TCU var öruggur eins og tölurnar bera með sér en þar sem liðið varð í öðru sæti deildarinnar komst liðið beint inn í undanúrslitin í úrslitakeppninni.

Deildarmeistararnir, BYU, töpuðu nokkuð óvænt fyrir Utah í hinni undanúrslitaviðureigninni og mæta því Helena og félagar Utah í sjálfum úrslitaleiknum í kvöld.

Utah varð í fimmta sæti í deildinni og þurfti að vinna alls þrjá leiki til að koma sér í úrslitaleikinn.

Wyoming, liðið sem varð í þriðja sæti deildairnnar, féll líka heldur óvænt úr leik eftir að liðið tapaði fyrir New Mexico sem varð í sjöunda sæti deildarinnar.

Helena og TCU eiga að harma að hefna gegn Utah en þær töpuðu einmitt fyrir því liði í undanúrslitunum í úrslitakeppninni í fyrra. Þetta var í þriðja sinn sem Helena keppir með TCU í undanúrslitunum en í fyrsta skipti sem hún kemst alla leið í úrslitaleikinn.

Helena hefur átt frábært tímabil og var valin í fyrsta úrvalslið deildarinnar á dögunum, rétt eins og í fyrra. Með stigunum 25 sem hún skoraði í nótt varð hún annar stigahæsti leikmaðurinn í sögu skólans.

Sigur TCU í nótt var einnig sögulegur þar sem að þetta var þriðji stærsti sigurinn í úrslitakepppni MWC-deildarinnar frá upphafi en hún var stofnuð árið 1999.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×