Körfubolti

Sundsvall knúði fram oddaleik - Jakob hetjan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jakob og Hlynur í búningi Sundsvall.
Jakob og Hlynur í búningi Sundsvall. Mynd/Valli
Sundsvall Dragons vann sigur á Norrköping Dolphins, 94-93, í æsispennandi framlengdum leik í lokaúrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar og knúði þar með fram oddaleik í rimmu liðanna um meistaratitilinn.

Norrköping leiddi á lokamínútnni og allt stefndi í sigur liðsins þar til að Jakob Örn Sigurðarson setti niður þriggja stiga körfu þegar aðeins tvær sekúndur voru til leiksloka og jafnaði þar með metin, 86-86. Framlengja þurfti því leikinn.

Úrslitin réðust svo á vítalínunni í lok framlengingarinnar. Þegar 22 sekúndur var staðan jöfn og brotið á Jakobi. Hann steig á vítalínuna og skoraði úr báðum vítunum.

Tveimur sekúndum fyrir leikslok var svo komið að leikmanni Norrköping og átti hann möguleika á að jafna metin. Hann klikkaði hins vegar á síðara vítakastinu, Jakob hirti frákastið og þar við sat.

Jakob skoraði fimm af átta stigum Sundsvall í framlengingunni og alls 28 í leiknum. Hann tók þar að auki sex fráköst. Hlynur Bæringsson skoraði sex stig, tók níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Staðan í rimmunni er nú 3-3 og fer oddaleikurinn fram á fimmtudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×