Ítalir mæta Spánverjum í vináttulandsleik í Bari á Ítalíu í kvöld. Guiseppe Rossi og Antonio Cassano verða í byrjunarliði heimamanna en Mario Balotelli vermir bekkinn.
„Með Cassano við hlið Guiseppe Rossi geta mótherjar okkar ekki dekkað framherjana líkt og þeir gætu ef Giampaolo Pazzini væri í stöðu framherja,“ sagði Prandelli þjálfari Ítala
Antonio Cassano verður væntanlega hylltur af stuðningsmönnum í Bari í kvöld en hann hóf feril sinn hjá félaginu.
Mario Balotelli verður til taks á varamannabekknum. Prandelli sló á létta strengi þegar hann var spurður út í framherjann sem er duglegur að koma sér í fréttirnar fyrir ranga hluti.
„Mario verður að einbeita sér að því sem hann gerir á vellinum. Við höfum æft í tvo daga og honum hefur ekki tekist að fara í taugarnar á mér ennþá,“ sagði Prandelli.
Byrjunarlið Ítala
Gianluigi Buffon; Christian Maggio, Andrea Ranocchia, Giorgio Chiellini, Domenico Criscito; Andrea Pirlo, Daniele De Rossi, Thiago Motta; Alberto Aquilani eða Riccardo Montolivo; Giuseppe Rossi, Antonio Cassano
Viðureign Ítala og Spánverja í Bari hefst klukkan 20 og er í beinni útsendingu á Stöð2 Sport.
