Spænska knattspyrnufélagið Atletico Madrid hefur fest kaup á tyrkneska kantmanninum Arda Turan. Samningur Turan mun vera til fjögurra ára en kaupverðið er talið vera tólf milljónir evra eða sem nemur tæpum tveimur milljörðum íslenskra króna.
Kantmaðurinn 24 ára kemur frá Galatasaray þar sem hann hefur borið fyrirliðabandið. Reiknað er með því að hann kveðji stuðningsmenn félagsins á blaðamannafundi í dag.
Turan fer í læknisskoðun hjá Atletico á föstudag og væntanlega kynntur stuðningsmönnum félagsins snemma í næstu viku. Hann hefur spilað 44 landsleiki og skorað í þeim 11 mörk.
Atletico Madrid lenti í sjöunda sæti La Liga, efstu deildarinnar á Spáni, á síðustu leiktíð. Liðið mætir portúgalska félaginu Vitoria Guimaraes í 4. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn eftir viku.
