Körfubolti

Þjóðverjar unnu Tyrki og héldu voninni á lífi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Nowitzki.
Dirk Nowitzki. Mynd/AP
Þjóðverjar eiga enn möguleika á því að komast í átta liða úrslitin á EM í körfubolta í Litháen eftir 73-67 sigur á Tyrkjum í æsispennandi leik í milliriðli eitt í dag. Annan leikinn í röð þurftu Tyrkir að sætta sig við að missa niður forskot en þýska liðið skoraði aðeins 6 stig í fyrsta leikhlutanum.

Chris Kaman var með 20 stig og 7 fráköst hjá Þjóðverjum og Dirk Nowitzki var með 19 stig, 7 fráköst og 3 stoðsendingar. Hetja liðsins var þó bakvörðurinn Philipp Schwethelm sem skoraði 11 af 14 stigum sínum í lokaleikhlutanum.

Chicago-maðurinn Ömer Asik var atkvæðamestur í tyrkneska liðinu með 19 stig og 11 fráköst en Enes Kanter, sem Utah Jazz valdi í nýliðavalinu í sumar, skoraði 11 stig á 19 mínútum. Hidayet Türkoglu lét sér nægja að skora 9 stig á 32 mínútum.

Þýska liðið komst upp með það að tapa fyrsta leikhlutanum 6-13 og tapa fráköstunum 34-43 en Tyrkir náðu 17 sóknarfráköstum í þessum leik. Þjóðverjar unnu þrjá síðustu leikhlutana og tryggðu sér mikilvægan sigur.

Serbía, Þýskaland og Tyrkland eru nú öll með 1 sigur og 3 töp fyrir lokaumferðina en þar mætast Serbía og Tyrkland en Þjóðverjar spila við heimamenn í Litháen. Fjögur efstu liðin komast í átta liða úrslitin og því kemst líklega aðeins eitt af fyrrnefndu þremur liðum upp úr milliriðlinum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×