Körfubolti

Tyrkir fyrstir til að vinna Spánverja á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marc Gasol og Omer Asik í leiknum í dag.
Marc Gasol og Omer Asik í leiknum í dag. Mynd/AFP
Tyrkir rifu sig upp eftir óvænt tap á móti Póllandi í gær og unnu 65-57 sigur á Evrópumeisturum Spánverja í lokaleik sínum í riðlinum á EM í Litháen í körfubolta.

Tyrkir lokuðu öllum leiðum í lokin og tryggðu sér sigur með því að vinna fjórða leikhlutann 16-2. Spænska liðið var búið að vinna fyrstu fjóra leiki sína á mótinu og var búið að tryggja sér sæti í milliriðlinum fyrir leikinn.

Tyrkir voru reyndar líka komnir áfram þökk sé 88-81 sigri Breta á Pólverjum í leiknum á undan en þeir Luol Deng (28 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar) og Joel Freeland (27 stig og 11 fráköst) fóru á kostum í leiknum.

Emir Preldzic var stigahæstur hjá Tyrkjum í sigrinum á Spáni með 18 stig og NBA-leikmennirnir Omer Asik og Hedo Turkoglu skoruðu báðir 12 stig.

Marc Gasol skoraði 12 stig fyrir Spán og bæði Rudy Fernandez og Felipe Reyes voru með 11 stig. Pau Gasol var hvíldur í leiknum og munaði um minna en hann hefur farið á kostum á mótinu til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×