Körfubolti

Sex þjóðir komnar áfram í milliriðla á EM í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pau Gasol hefur leikið vel með Spánverjum til þess á EM.
Pau Gasol hefur leikið vel með Spánverjum til þess á EM. Mynd/AP
Evrópumeistarar Spánar eru eitt af sex liðum sem eru komin áfram í milliriðla á Evrópumótinu í körfubolta sem nú stendur yfir í Litháen. Hinar þjóðirnar sem eru komnar áfram eru Frakkland, Serbía, Þýskaland, Rússland og Slóvenía en allar þessar sex þjóðir nema Þýskaland hafa unnið alla fjóra leiki sína í keppninni til þessa.   

Juan Carlos Navarro skoraði 22 stig fyrir Spán í 91-79 sigri á heimamönnum í Litháen en spænska liðið varð komið með 26 stiga forystu í hálfleik og er greinilega enn í meistaragírnum. Pau Gasol skoraði 17 stig og Serge Ibaka var með 15 stig fyrir spænska landsliðið.

Pólland vann óvæntan 84-83 sigur á Tyrkjum í sama riðli og Tyrkir eiga það því á hættu á að vera úr leik vinni þeir ekki Spán í lokaleiknum. Derdan Berisha var hetja Pólverja skoraði 21 stig og þar á meðal var sigurkarfan.

Frakkar unnu 91-84 sigur á Ítölum í B-riðli þökk sé frábærum fjórða leikhluta sem þeir unnu 31-17 og það án Tony Parker sem meiddist í leiknum. Þessi sigur Frakka tryggði jafnframt Serbíu og Þýskalandi sæti í næstu umferð. Serbar unnu seinna 75-64 sigur á Þjóðverjum þrátt fyrir að Dirk Nowitzki hafi skorað 25 stig fyrir þýska liðið.

Rússar og Slóvenar eru með fullt hús í D-riðli. Rússar unnu Búlgaru 89-77 og Slóvenía vann Belgíu 70-61. Georgía, Búlgaría og Úkraína berjast um þriðja og síðasta sætið inn í milliriðil

Það er mesta spennan í C-riðlinum þar sem Makedónía marði Finnland 72-70,  Grikkir unnu Svartfellinga 71-55 og Bosníumenn unnu óvænt nágranna sína í Króatíu 92-90. Allar sex þjóðirnar í riðlinum nema Svartfjallaland eiga enn möguleika á því að komast áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×