Körfubolti

Flottur endasprettur kom Frökkum í undanúrslitin á EM í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Parker.
Tony Parker. Mynd/AFP
Frakkar tryggðu sér í dag sæti í undanúrslitum á Evrópumótinu í körfubolta þegar þeir unnu átta stiga sigur á Grikkjum, 64-56, í átta liða úrslitum á EM í Litháen.

NBA-bakverðirnir Tony Parker og Nicolas Batum fóru á flug í lokaleikhlutanum þar sem að þeir skoruðu 18 af 33 stigum sínum í leiknum.

Frakkar unnu fyrir vikið upp fimm stiga forskot Grikkja í fjórða leikhlutanum og fögnuðu sæti í undanúrslitunum þar sem þeir mæta annað hvort Rússum eða Serbum sem spila seinna í kvöld.

Tony Parker var stigahæstur Frakka með 18 stig, Nicolas Batum skoraði 15 stig og Nando de Colo var með 12 af 16 stigum sínum í fyrri hálfleiknum. Miðherjinn Ioannis Bourousis var með 17 stig og 11 fráköst hjá Grikkjum.

Frakkar unnu sjö fyrstu leiki sína á mótinu en töpuðu lokaleik sínum í milliriðlinum þar sem að þeir hvíldu tvo bestu leikmennina sína. Með því völdu þeir sér að mæta Grikkjum í átta liða úrslitum og það virtist lengi vel vera að koma í bakið á þeim.

Frakkar voru hreinlega ekki mættir til leiks í upphafi leiks. Grikkir skoruðu sjö fyrstu stig leiksins og voru 15-4 yfir eftir sex mínútna leik. Frakkar náðu að minnka muninn í þrjú stig, 14-17, fyrir lok fyrsta leikhlutans.

Grikkir náðu sjö stig forskoti í upphafi annars leikhluta, 21-14, héldu áfram forystunni og voru 31-27 yfir í hálfleik.

Grikkir náðu aftur sjö stiga forkosti í upphafi þriðja leikhlutans, Frakkar náðu að jafna í 40-40 með því að skora sex stig í röð en Grikkir náðu aftur forystunni og voru 43-40 yfir fyrir lokaleikhlutann.

Grikkir skoruðu fyrstu tvö stigin í fjórða leikhlutanum en Frakkar svöruðu með níu stigum í röð og voru komnir með frumkvæðið í leiknum sem þeir héldu út leikinn. Tony Parker átti þátt í sjö af þessum stigum og var kominn í gang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×