Körfubolti

Spánverjar komnir í undanúrslitin á EM í körfu - unnu Slóvena létt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Juan Carlos Navarro var frábær í dag.
Juan Carlos Navarro var frábær í dag. Mynd/AFP
Evrópumeistarar Spánverja urðu í dag fyrsta liðið til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum á EM í körfubolta í Litháen eftir sannfærandi 22 stiga sigur á Slóvenum, 86-64, í átta liða úrslitunum. Spánverjar mæta sigurvegaranum úr leik Litháen og Makedóníu sem spila sinn leik seinna í kvöld.

Fyrirliðinn Juan Carlos Navarro átti frábæran leik hjá Spáni og skoraði 26 stig á 26 mínútum þar af komu 17 þeirra í þriðja leikhlutanum þegar spænska liðið gerði út um leikinn. Navorro hitti úr 11 af 16 skotum sínum í leiknum. Pau Gasol var með 19 stig og 16 fráköst og þeir José Calderón og Serge Ibaka skoruðu báðir níu stig.

Goran Dragic var stigahæstur hjá Slóveníu með 14 stig en Mirza Begic skoraði 10 stig. Slóvenar náðu fjórða sætinu á síðasta EM 2009 en náðu ekki alveg að fylgja þeim árangri eftir nú.  

Slóvenar byrjuðu þó leikinn vel og sjö stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 23-16. Spánverjar fóru þá í gang, unnu annan leikhlutann 19-8 og voru fimm stigum yfir í hálfleik, 35-31.

Spænska liðið fór síðan á kostum í þriðja leikhlutanum sem liðið vann 36-14 og var því komið með 26 stiga forystu, 71-45, fyrir lokaleikhlutann sem var því aðeins formsatriði.

Slóvenar skoruðu níu fyrstu stigin í fjórða leikhluta og náðu muninum niður í 17 stig en nær komust þeir ekki og sigur Spánverja var aldrei í hættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×