Körfubolti

Rússland eina taplausa liðið á EM í körfu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sergey Monoya og félagar hans í rússneska landsliðinu fagna í gær.
Sergey Monoya og félagar hans í rússneska landsliðinu fagna í gær. Nordic Photos / AFP
Í gær kláraðist milliriðlakeppnin á EM í körfubolta sem nú fer fram í Litháen. Fjórðungsúrslitin hefjast á morgun en Finnar máttu bíta í það súra epli að falla úr leik á lokadegi milliriðlakeppninnar.

Rússar unnu í gær ævintýralegan sigur á Makedónum, 63-61, með þriggja stiga flautukörfu í lok leiksins. Sergey Monoya, fyrirliði rússneska liðsins, skoraði körfuna mikilvægu en fram að því hafði makedónska liðið barist af miklum krafti.

Bæði lið voru taplaus fyrir leikinn en sigurinn þýðir að Rússar unnu sinn milliriðil og fá því lakasta liðið sem komst áfram úr hinum milliriðlinum í fjórðungsúrslitunum.

Makedónía endaði því í öðru sæti riðilsins en Grikkir, sem unnu öruggan sigur á Georgíu, urðu í þriðja sætinu.

Þá mættust Slóvenía og Finnland í hreinum úrslitaleik um hvort liðið kæmist áfram í fjórðungsúrslitin og fóru leikar þannig að Slóvenar unnu að lokum sjö stiga sigur, 67-60.

Finnar hafa átt frábært mót í Litháen og komið mörgum á óvart. En á endanum reyndust Slóvenar, sem hafa valdið vonbrigðum, einfaldlega of sterkir. Slóvenía var með forystuna allan leikinn en Finnar náðu mest að minnka muninn í sex stig í fjórða leikhluta. Nær komust þeir ekki.

Á morgun hefjast svo fjórðungsúrslitin þegar tveir leikir fara fram. Nú tekur við einfalt útsláttarfyrirkomulag en úrslitaviðureignin fer svo fram á sunnudaginn kemur.

Fjórðungsúrslitin:

14. september:

Kl. 15.00: Spánn - Slóvenía

Kl. 18.00: Makedónía - Litháen

15. september:

Kl. 15.00: Frakkland - Grikkland

Kl. 18.00: Rússland - Serbía




Fleiri fréttir

Sjá meira


×