Körfubolti

Litháar sendu Þjóðverja heim á EM í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Nowitzki.
Dirk Nowitzki. Mynd/AP
Litháen varð í kvöld fjórða og síðasta liðið úr milliriðli eitt á Evrópumótinu í körfubolta í Litháen til þess að tryggja sér sæti í átta liða úrslitunum.  Litháar unnu þá níu stiga sigur á Þjóðverjum, 84-75, en Þjóðverjar gátu slegið gestgjafana út úr keppninni með sigri.

Litháar voru með frumkvæðið allan leikinn en náðu aldrei að losa sig við Þjóðverja sem náðu síðan að jafna leikinn í 75-75 þegar tvær mínútur voru eftir. Litháar brugðust þó ekki á úrslitastundu og tryggðu sér sigur með því að skora níu síðustu stig leiksins.

Leikstjórnendur Litháa, Rimantas Kaukenas (19 stig) og Sarunas Jasikevicius (17 stig) fóru fyrir liðinu í kvöld en nýi NBA-maðurinn Jonas Valanciunas var með 15 stig á 18 mínútum.

Chris Kaman var með 25 stig og 11 fráköst hjá Þjóðverjum en það munaði mikið um að Dirk Nowitzki náði sér ekki á strik og hitti aðeins úr 4 af 17 skotum sínum. Nowitzki endaði þó með 16 stig go 9 fráköst en Robin Benzing var næststigahæstur Þjóðverja með 18 stig.

Spánn, Frakkland, Litháen og Serbía komust í átta liða úrslitin úr milliriðli eitt og Rússland, Makedónía og Grikkland eru þegar komin áfram í hinum riðlinum. Slóvenía og Finnland spila síðan hreinan úrslitaleik um fjórða sætið á morgun.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×