Körfubolti

Rússar með sjöunda sigurinn í röð á EM í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrei Kirilenko.
Andrei Kirilenko. Mynd/AP
Rússar héldu sigurgöngu sinni áfram á EM í körfubolta í Litháen í kvöld með því að vinna 16 stiga sigur á Grikkjum, 83-67. Grikkir eru samt þegar búnir að tryggja sér sæti í átta liða úrslitunum eftir að Slóvenar töpuðu í dag en Finnland og Slóvenía mætast í hreinum úrslitaleik um fjórða og síðasta sætið í lokaumferðinni.

Rússar líta mjög vel út en þeir eru búnir að vinna alla sjö leiki sína á EM þar af tvo leiki sína í milliriðlinum með samtals 35 stiga mun. Þeir unnu Finna í leiknum á undan 79-60.

Timofey Mozgov, sem lék með New York Knicks og Denver Nuggets á síðasta tímabili í NBA, var atkvæðamestur Rússanna með 19 stig en Alexey Shved skoraði 15 stig og Andrei Kirilenko,leikmaður Utah Jazz, var með 13 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar.

Rússland og Makedónía eru bæði með fullt hús í milliriðli 2 eftir 68-59 sigur Makedóna á Slóveníu í dag. Rússar og Makedónar spila síðan hreinan úrslitaleik um fyrsta sæti í milliriðlinum í lokaumferðinni á mánudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×