Körfubolti

Finnar unnu flottan sigur á Georgíumönnum á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnar fagna í dag.
Finnar fagna í dag. Mynd/AP
Norðurlandameistarar Finna halda áfram að standa sig vel á EM í körfubolta í Litháen en þeir eiga enn möguleika á því að komast í átta liða úrslitin eftir fjórtán stiga sigur á Georgíu, 87-73, í dag.

Sex leikmenn finnska liðsins skoruðu tíu stig eða meira í leiknum en Mikko Koivisto var stigahæstur með 14 stig og þeir T Kotti og Petteri Koponen skoruðu báðir 12 stig. Teemu Rannikko var síðan með 10 stig og 6 stoðsendingar.

Finnar skyldu Georgíumenn eftir í botnsæti milliriðilsins og munu spila úrslitaleik við Slóveníu á mánudaginn um sæti í átta liða úrslitunum.

Finnar byrjuðu leikinn mjög vel og voru níu stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 22-13, þar sem að þeir hittu úr 4 af 7 þriggja stiga skotum sínum.

Georgíumenn skoruðu átta fyrstu stigin í öðrum leikhluta og komu sér strax inn í leikinn en Finnar voru þremur stigum yfir í hálfleik 36-33.

Sterk byrjun Finna í seinni hálfleik færði þeim níu stiga forskot (46-37) en sem fyrr voru Georgíumenn fljótir að minnka muninn aftur þegar þeir náðu 9-2 spretti.

Finnar voru hinsvegar sterkari, unnu þriðja leikhlutann 25-19 og svo lokaleikhlutann 26-21.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×