Körfubolti

Hlynur meiddur í baki - vonandi ekki alvarlegt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hlynur Bæringsson í leik með Sundsvall Dragons.
Hlynur Bæringsson í leik með Sundsvall Dragons. Mynd/Valli
Hlynur Bæringsson missti af síðasta leik Sundsvall Dragons í sænsku úrvalsdeildinni þar sem hann er að glíma við bakmeiðsli.

Hann sagði við Vísi vonast til að meiðslin væru ekki alvarleg. „Mér er sagt að þetta séu ekki langtímameiðsli - ekki brjósklos eða neitt slíkt,“ sagði Hlynur en án hans tapaði Sundsvall sínum fyrsta heimaleik á tímabilinu, gegn LF Basket nú fyrr í vikunni.

„Þetta hafði angrað mig í dágóðan tíma og því varð ég að segja stopp eftir síðasta leik á undan - enda vonlaust að þjösnast á þessu. Þegar maður meiðist í baki eru neikvæðar hugsanir fljótar að koma í hugann og því var mjög gott að heyra að þetta eigi ekki eftir að angra mig lengi.“

Hlynur, sem er fyrirliði Sundsvall Dragons, hefur skorað 12,1 stig að meðaltali í leik á tímabilinu til þessa, tekið 9,8 fráköst og gefið 2,3 stoðsendingar. Hann var lykilmaður í liðinu á síðasta tímabili er Sundsvall varð Svíþjóðarmeistari.

Jakob Örn Sigurðarson og Pavel Ermolinskij eru einnig á mála hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×