Körfubolti

Logi fór á kostum og tryggði Solna sigur á Sundsvall

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Logi Gunnarsson í leik með íslenska landsliðinu.
Logi Gunnarsson í leik með íslenska landsliðinu.
Logi Gunnarsson tryggði sínum mönnum í Solna Vikings góðan sigur á Svíþjóðarmeisturum Sundsvall Dragons með körfu þegar þrjár sekúndur voru til leiksloka. Lokatölur voru 78-77.

Logi hafði komið sínum mönnum yfir með þriggja stiga körfu þegar 39 sekúndur voru til leiksloka, 76-75. Sundsvall náði þó að komast yfir þegar níu sekúndur eftir en Logi átti svo lokaorðið.

Pavel Ermolinskij tók svo síðasta skot leiksins á lokasekúndunni en það geigaði. Leikmenn Solna fögnuðu því góðum sigri og eiga Loga mikið að þakka því hann skoraði alls fimmtán af 22 stigum liðsins í fjórða leikhluta - þar af þrjú þriggja stiga skot á síðustu þremur mínútunum. Sannarlega ótrúlega frammistaða hjá kappanum.

Aðeins munaði einu stigi á liðunum þegar síðasti leikhlutinn hófst en þá var staðan 56-55. Solna var þó með yfirhöndina lengst af í leikhlutanum, allt þangað til að Sundsvall komst yfir í blálok leiksins. En Logi reyndist svo hetja sinna manna þegar hann skoraði sigurkörfuna þremur sekúndum fyrir leikslok, sem fyrr segir.

Íslendingarnir voru afar fyrirferðamiklir í leiknum og skoruðu samtals 78 stig - jafn mörg og allt lið Solna í leiknum.

Logi skoraði 28 stig fyrir Solna og var langstigahæsti leikmaður liðsins. Hjá Sundsvall var Jakob Sigurðarson stigahæstur með 21 stig, Hlynur Bæringsson kom næestur með átján auk þess að taka tíu fráköst. Pavel skilaði einnig flottum tölum, 11 stigum, níu fráköstum og sjö stoðsendingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×