Körfubolti

Hrafn: Þessi keppni er okkur mjög mikilvæg

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Hrafn Kristjánsson þjálfari KR.
Hrafn Kristjánsson þjálfari KR.

„Tindastóll er lið sem er í mikilli framför og það verður ekki auðvelt að mæta þeim þrátt fyrir að við séum á heimavelli," sagði Hrafn Kristjánsson þjálfari KR eftir að ljóst var að KR-ingar fengu Tindastól í undanúrslitum Poweradebikarsins í körfubolta karla.

Haukar taka á móti Grindavík í hinni undanúrslitarimmunni. Leikirnir fara fram 5.-6. febrúar og úrslitaleikurinn er í Laugardalshöllinni 19. febrúar.

„Við fengum að sjá þá í góðum gír í fyrri hálfleik gegn okkur á dögunum en við þurfum að vinna okkar heimavinnu áður en við mætum þeim. Það eru 20 ár frá því að KR varð síðast bikarmeistari og þetta er því mjög góður tími til þess að ljúka þeirri bið. Þessi keppni er okkur mjög mikilvæg og mér finnst liðið vera að taka skref fram á við á nýju ári. Hugarfarið er betra og varnarleikurinn er einnig betri."

Mætum bara kokhraustir í Vesturbæinn

„Við mætum bara kokhraustir í Vesturbæinn, það hefur gengið vel hjá okkur eftir að við skiptum um útlendinga í haust. Við erum með tvo en vorum áður með þrjá. Það hefur allt smollið saman eftir þessa breytingu og ég er sannfærður um að Skagfirðingar fjölmenna í vesturbæinn þegar við mætum KR," sagði Helgi Rafn Vigósson leikmaður Tindastóls. „Tindastóll komst síðast í undanúrslit árið 2002 þar sem við töpuðum gegn Njarðvík. Í bikarkeppninni getur allt gerst og ég er bara bjartsýnn. Þetta verður gaman og við stefnum á að komast í Laugardalshöllina," sagði Helgi Rafn.

Það verður ekkert vanmat í gangi

„Það skiptir engu máli hvaða liði maður mætir í undanúrslitum, þetta eru allt sterk lið," sagði Helgi Jónas Guðfinnsson þjálfari Grindavíkur en lið hans mætir Haukum á útivelli í undanúrslitum Powerade-bikars karla. Grindavík tapaði í úrslitum keppninnar í fyrra gegn Snæfelli og Helgi varð bikarmeistari sem leikmaður Grindavíkur árið 2006. „Við ætlum okkur að sjálfsögðu alla leið, en það verður erfitt." Helgi var búinn að landa bandarískum leikmanni á dögunum sem hafði reynslu úr NBA deildinni en hann valdi að fara til Rúmeníu og skildi Grindvíkinga eftir með sárt ennið. „Ég er búinn að finna nýjan leikmann en ég ætla ekki að segja hver hann er fyrr en hann er mættur á svæðið og allt er klárt. Hann er leikstjórnandi og vonandi verður hann kominn fljótlega. Haukar eru með sterka liðsheild og tvo góða útlendinga. Það verður ekkert vanmat í gangi hjá okkur.

Pétur hefði viljað fá ÍA í úrslitum

Pétur Ingvarsson þjálfari Hauka var mest svekktur yfir því að fá ekki leik gegn ÍA í úrslitum Powerade-bikarsins og vitnaði þar allt aftur til ársins 1996. „Haukar hafa ekki leikið í úrslitum frá þeim tíma en við erum alveg rólegir yfir þessu öllu saman. Grindavík verður án efa komið með frábæran útlending fyrir undanúrslitin en við erum bara ánægðir með að fá heimaleik. Framhaldið ræðst síðan í leiknum sjálfum. Liðið okkar er ungt og margir leikmenn eru með færri leikmínútur í efstu deild en úrvalsdeildarleikirnir hjá mér. Það tekur sinn tíma að byggja upp lið hjá Haukum og það er liðin tíma að það séu landsliðsmenn í hverri stöðu hjá Haukum. Við erum að vinna í því en það tekur tíma," sagði Pétur sem náði því að koma Hamri tvívegis í úrslitaleikinn í bikarnum sem þjálfari en liðið tapaði í bæði skiptin.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×