Brasilíumaðurinn Kaka verður í leikmannahópi Real Madrid í kvöld í fyrsta sinn síðan að Jose Mourinho tók við stjórn liðsins.
Kaka hefur átt við erfið meiðsli að stríða og hefur ekkert spilað síðan hann gekkst undir aðgerð á hné í ágúst síðastliðnum.
Fernando Gago er einnig í hópnum í kvöld en hann hefur einnig verið frá allt tímabilið vegna hnémeiðsla. Real Madrid mætir Getafe í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Þeir Pepe og Ricardo Carvalho taka út leikbann í kvöld og Gonzalo Higuain og Jerzy Dudek eru meiddir. Mahamadou Diarra er ekki í hópnum að þessu sinni.
„Kaka verður ekki í byrjunarliðinu gegn Getafe og er enn langt frá því að geta spilað í 90 mínútur. Við fáum að njóta hæfileika hans í 15-20 mínútur en ekki lengur," sagði Mourinho við spænska fjölmiðla.
„Kaka er mikill fagmaður og hefur staðið sig gríðarlega vel í endurhæfingu sinni. Ég vil hrósa honum sérstaklega fyrir það."
Kaka er sagður til sölu hjá Real Madrid og hefur til að mynda verið orðaður við Manchester United.