Handbolti

Akureyringar með sex stiga forskot á toppnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Oddur Gretarsson skoraði 10 mörk í kvöld.
Oddur Gretarsson skoraði 10 mörk í kvöld. Mynd/Stefán
Akureyringar náðu sex stiga forskoti á toppi N1 deildar karla eftir 36-28 sigur á Selfossi í kvöld en Framarar geta minnkað forskotið aftur niður í fjögur stig vinni þeir Mosfellinga á eftir.

Sveinbjörn Pétursson fór á kostum í marki Akureyrar varði 21 bolta þar af 12 skot í seinni hálfleik. Akureyri vann seinni hálfleikinn 20-15. Oddur Gretarsson og Bjarni Fritzson voru markahæstir norðanmanna með tíu mörk hvor en Daníel Einarsson skoraði 5 mörk. Atli Kristinsson og Ragnar Jóhannsson voru markahæstir heimamanna með sex mörk hvor.

Akureyrarliðið hefur því unnið tvo fyrstu leiki sína eftir HM-fríið en liðið vann 28-26 sigur á Val fyrir viku síðan. Selfoss náði á sama tíma að enda níu taphrinu sína með því að ná 25-25 jafntefli við Hauka. Selfossliðið hefur ekki unnið leik í deildinni síðan 7. október eða í ellefu leikjum í röð.

Akureyringar voru með þriggja marka forskot í hálfleik, 16-13, þrátt fyrir að Helgi Hlynsson hafi varið 12 skot í marki Selfoss í fyrri hálfleiknum. Bjarni Fritzson var kominn með sjö mörk í hálfleik.

Akureyri náði mest níu marka forskoti í seinni hálfleik, 30-21, en Selfyssingar náðu að minnka muninn í lokin þar sem Atli Kristinsson skoraði fimm mörk á lokamínútunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×