
Hópurinn mun funda reglulega með samningamönnum Íslands um stöðuna í viðræðunum og framgang þeirra og eitt meginhlutverk hans verður að miðla upplýsingum til landsmanna og stuðla að málefnalegri umræðu um hagsmuni þjóðarinnar og möguleg áhrif aðildar Íslands að sambandinu.
Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, hefur verið skipaður formaður hópsins. Varaformenn eru Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að ráðherra muni á næstunni skipa tuttugu fulltrúa til viðbótar í samráðshópinn. „Við val á þeim verður sérstök áhersla lögð á kynjajafnvægi, jafnvægi á milli landshluta, höfuðborgarsvæðis og dreifbýlis, sem og á andstæð sjónarmið í Evrópumálunum.“ Þá geti hópurinn kallað til frekara samráðs einstaklinga og fulltrúa stjórnmálaflokka og ýmissa samtaka. - sh
