Spánarmeistarar Real Madrid luku keppnistímabilinu með öruggum sigri á Mallorca, 4-1. Real náði því 100 stigum í deildinni í vetur eða níu stigum meira en Barcelona. Real skoraði þess utan 121 mark í deildinni í vetur.
Þessi 100 stig og 32 sigurleikir eru að sjálfsögðu nýtt met í spænska boltanum. Ótrúlegur árangur.
Það var Cristiano Ronaldo sem hóf veisluna með fínu marki. Það mark var sögulegt enda náði Ronaldo með því að verða fyrsti maðurinn í sögu spænska boltans sem skorar gegn öllum liðum deildarinnar á einu tímabili. Hann varð um leið einnig sjötti maðurinn í sögu Real Madrid sem skorar í sjö leikjum í röð.
Mallorca sá aldrei til sólar í leiknum og Karim Benzema kom Real í 2-0 fyrir hlé.
Mesut Özil kom Real í 3-0 með laglegu marki áður en Gonzalo Castro minnkaði muninn fyrir sólstrandargæjana.
Özil var þó ekki hættur og bætti sínu öðru marki við. Í fyrsta skipti sem hann skorar tvö mörk í leik fyrir Real Madrid.
