Íslenskur geðlæknir hafði yfirumsjón með því að meta geðheilsu Anders Behring Breivik. Læknirinn, sem heitir María Sigurjónsdóttir, bar vitni fyrir réttinum í morgun. Þar sagði hún, samkvæmt frásögn norska blaðsins VG, að teymi geðheilbrigðisstarfsfólks sem sá um að vakta Breivik allan sólarhringinn í þrjár vikur í febrúar síðastliðnum hafi fundist sem Breivik væri að reyna að sannfæra þau um hugmyndafræði sína.
Fram kemur í frétt VG að það hafi alls verið 18 manns í teyminu sem fylgdist með Breivik allan sólarhringinn í þrjár vikur á Ila sjúkrahúsinu í Noregi. Það voru einkum hjúkrunarfræðingar, en einnig sjúkraliðar, geðlæknar og félagsráðgjafi. Fólkið í hópnum hafði að meðaltali 21 árs reynslu af störfum við geðhjúkrun.

