Matthías Máni Erlingsson strokufangi er enn ófundinn. Hann hefur farið á sérstakt námskeið til að læra að lifa af í óbyggðum og telur lögregla það hjálpa honum á flóttanum.
Nærri sex sólarhringar eru síðan að Matthías komst út úr fangelsinu en umfangsmikil leit að honum hefur engu skilað. Áhersla er nú lögð á leit á Suðurlandi.
„Hann þekkir til á Suðurlandi og hefur tengsl við Laugavatn, hann hefur búið þar og unnið," segir Arnar Rúnar Marteinsson, aðalvarðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Þá hefur Matthías Máni einnig tengsl við Hveragerði og lagði hann stund á fjallgöngur í Reykjadalnum. Einnig þekkir hann vel til í Laugarási.
„Svo er það síðast en ekki síst Flúðir. En hann tengist þeim stað þannig að hann vissi að fórnlambið, sem hann réðst á og var dæmdur fyrir, var á Flúðum áður en hann flúði út," segir Arnar Rúnar en eins og fram hefur komið þá hótaði Matthías henni lífláti áður en hann flúði.
Matthías hefur hlotið sérstaka þjálfun í að bjarga sér í erfiðum aðstæðum.
„Við höfum þær upplýsingar að hann hafi farið á námskeið eða skóla, þar sem hann lærði að lifa af í óbyggðum," segir hann.