Skoðun

Svarað fyrir Saari

Sighvatur Björgvinsson skrifar
Helgi Seljan fréttamaður fór þess á leit við Þór Saari alþingismann í Kastljóssþætti á dögunum að alþingismaðurinn bæðist afsökunar á því að vilja réttlæta níðingsverk með reiði skuldara vegna hrunsins og vanefnda stjórnvalda. Örvinglað fólk sé bara „að boxa til baka". Þór hefur nú orðið við þeirri beiðni. En Helgi Seljan ætti að líta sinni stétt nær. Er þetta ekki einmitt það, sem hún hefur ítrekað daðrað við?

Var það ekki RÚV sem gerði hvað mest úr því þegar „svindlari", eins og Helgi sjálfur kallaði „viðfangsefnið", eyðilagði eigur annarra með vélgröfu undir sjónvarpsmyndavélum eftir að hafa haft milljónir af saklausu fólki með svikum? Var það ekki RÚV, en ekki bara Þór Saari, sem notaði þessa atburði sem dæmi um hina réttlátu reiði, sem skuldarar hefðu alið með sér? Og hvað um fjölskylduna á Suðurnesjum, sem keypt hafði raðhús og tvo nýja bíla, allt í skuld, og var komin í vanskil löngu fyrir hrun? Var það ekki RÚV, sem hvað hæst barði bumburnar í túlkun sinni á því hrikalega óréttlæti, sem þessi fjölskylda þyrfti að mæta í eftirmála hrunsins? Ekki man ég betur.

Þegar betur var að gáð kom hins vegar allur annar sannleikur í ljós en sannleikur fréttastofanna — í báðum tilgreindum tilvikum. Lítið fór hins vegar fyrir þeirri frásögn í fréttunum. Og náttúrlega var engrar afsökunar beðist — eða hvað? Slík dæmi um óvandaða fréttamennsku eru legíó. Og hvað um látlausan áróður í föstum fréttaskýringaþáttum sjónvarps- og útvarpsstöðva til upphafningar á reiði og til afbötunar á ofsa og hamsleysi jafnt í orðum sem athöfnum í skjóli hrunsins og „vanefnda" stjórnvalda? Margir þeirra, sem lengst gengu í gagnrýnislausri upphafningu á gleypigangi og rembilæti vanhæfu gróðapunganna fyrir hrun kynda nú sem mest þeir mega elda reiði, haturs og heiftrækni. Einn þáttastjórnenda sjónvarpsstöðvanna orðaði það svo á dögunum á fésbókarsíðu sinni að e.t.v. væri „meðvirknin með reiðinni" orðin of mikil. Bragð er að þá barnið finnur.

Ætli þeir séu ekki fleiri en Þór Saari sem þyrftu að biðjast afsökunar á „meðvirkninni"?




Skoðun

Sjá meira


×