Skoðun

Þegar Hótel Ísland brann

Guðfinna Guðmundsdóttir skrifar
Ég man það eins og gerst hefði í gær. Það var í janúar 1944. Ég var rétt orðin tólf ára og fékk stöku sinnum leyfi til að fara í bæinn. Við bjuggum ofarlega á Njálsgötunni, við Barónsstíg. Fréttin hafði borist eins og eldur í sinu um Reykjavík – Hótel Ísland var að brenna. Daginn eftir fórum við saman eldri systir mín, vinkona hennar og ég til að sjá rústirnar og þær voru tilkomumiklar því hörkufrost var og því hafði vatnið sem notað var til slökkvistarfsins frosið í íshröngla – allt í klakaböndum. Slökkvistarfið hafði einungis getað farið fram frá Austurstræti og Aðalstræti. Ekki gat slökkvilið Reykjavíkurborgar athafnað sig í Vallarstræti eða Veltusundi því þar var allt of þröngt.

Sem krakki hafði ég aldrei þorað að fara inn í Veltusundið, hvað þá Vallarstrætið. Mér fannst þau dimm, köld og illa lyktandi. En einhvern veginn var eins og allt hefði breyst, allt var bjartara og opnara. Og nú fyrst sá ég fallega rauða húsið „Hótel Vík", hús sem ég hafði einhverra hluta vegna ekki komið auga á í skugga sundsins.

Í sumar hefur mannlífið í borginni verið með litríkasta og skemmtilegasta móti. Á Ingólfstorgi hafa vegfarendur getað notið blíðunnar, sest niður og pantað sér kaffibolla. Allt opið og bjart. En fallega rauða húsið man fífil sinn fegurri og nú er umhverfi þess í uppnámi.

Afleit er sú hugmynd að byggja hús á Ingólfstorgi og endurvekja þröng sund og loka Hótel Vík inni á ný. Látum ekki skugga, kulda, myrkur og umferðarteppu einkenna dýrmætasta svæði Reykjavíkurborgar. Stöndum saman um að finna farsæla lausn fyrir alla og að svæðið sem markast af Austurvelli, Fógetagarði og Ingólfstorgi fái að vera opið, bjart og fallegt með gömlum húsum sem segja öll sína sögu.

Safnað er undirskriftum á www.ekkihotel.is gegn því að rauða fallega húsið verði ofurliði borið.




Skoðun

Sjá meira


×