Skoðun

Sighvatur getur sagt „nei“ án vandkvæða

Reimar Pétursson skrifar
Sighvatur Björgvinsson skrifar grein í Fréttablaðið 11. okt. 2012 um komandi ráðgefandi kosningar um stjórnarskrármál. Hann er skiljanlega í vanda með hvernig hann á að svara þeim óskýru spurningum sem stendur til að leggja fyrir þjóðina.

Hann lýsir sig „ósammála sumum“ tillögum stjórnlagaráðs en „sammála öðrum“ og vill ekki að vinnu að baki tillögunum „verði hent út í hafsauga“. En þar sem hann sé ósammála sumum tillögunum geti hann ekki sagt „já“.

Málið vandast hins vegar þegar hann segir að mín afstaða til málsins geri honum ókleift að segja „nei“ við tillögunum. Hann segir mig telja að „nei“ leiði til þess að „þá eigi að leggja tillögurnar til hliðar og ekki taka mark á þeim meir“. Sighvatur segist því standa frammi fyrir því að geta hvorki sagt „já“ eða „nei“.

Upp virðist kominn óleysanlegur hnútur! Lausnin er hins vegar einföld. Í reynd er ástæðulaust að ætla minni afstöðu til tillagna stjórnlagaráðs svona mikið hlutverk. Þótt ég sé á móti tillögum stjórnlagaráðs hef ég aldrei lagst gegn því að gerðar séu skynsamlegar breytingar á stjórnarskránni með víðtækri sátt.

Kjarni málsins er hins vegar sá að ég er ekki að leggja spurningarnar fyrir þjóðina heldur er það löggjafinn. Löggjafinn getur því unnið með tillögur stjórnlagaráðs með þeim hætti sem hann telur sæmandi eftir atkvæðagreiðsluna.

Þá er vandi Sighvats leystur. Nú getur hann sagt „nei“ án vandkvæða. Hann getur svo talað við þingmenn eftir kosningarnar og unnið að framgangi þeirra tillagna stjórnlagaráðs sem honum finnast skynsamlegar. Þeir sem eru ósammála honum geta unnið að hinu gagnstæða.




Skoðun

Sjá meira


×