Lionel Messi skoraði tvö mörk á þriðjudagskvöld þegar Barcelona tryggði sér sæti í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar með 3-0 sigri á Spartak í Moskvu. Hann var að skora tvennu í þriðja Barcelona-leiknum í röð og það þykir varla merkilegt lengur ef hann skorar, því tvö mörk eru eiginlega orðin lágmarkið hjá þessum magnaða leikmanni.
Messi hefur nú spilað 19 leiki með Barcelona á tímabilinu, skoraði tvennu í níu þeirra og þrennu í þeim tíunda. Honum hefur aðeins mistekist að skora í sex leikjum á leiktíðinni en hefur lagt upp mark í þeim öllum nema tveimur. Fyrir vikið þykir það oft meiri frétt en þegar hann skorar mark.
Messi er þarna fórnarlamb eigin velgengni og meðfylgjandi línurit sýnir þessa þróun svart á hvítu. Hann hefur hækkað sig á hverju ári og virðist ekkert ætla að slaka á.
Messi var nýorðinn 21 árs þegar Pep Guardiola tók við liðinu og var þá þegar búinn að spila með aðalliði Barcelona í þrjú ár. Guardiola tók hann hins vegar út úr skugga „stóru" nafnanna og ákvað að leikur liðsins skyldi snúast um Messi, sem jafnframt var kominn framar á völlinn.
Það var ekki að sökum að spyrja, Messi blómstraði og hjálpaði Barca að vinna alla titlana á fyrsta tímabili Guardiola. Messi fór frá því að skora 0,4 mörk í leik (16 mörk í 40 leikjum) í það að skora 0,75 mörk að meðaltali í hverjum leik (38 mörk í 51 leik).
Síðan hefur Messi bætt við meðalskor sitt á hverju tímabili og hann virðist alltaf vera að bæta met eða nálgast met. Þau verða nú fljótlega ekki mörg eftir. Hann skoraði í fyrsta sinn yfir mark að meðaltali í leik á síðasta tímabili og er að gera enn betur í vetur.
Stóra spurningin nú er hvenær þessi ótrúlega markakúrfa Messi nær hámarkinu. Messi er ekki nema 25 ára og á því eftir að bæta við hæfileika sína sem knattspyrnumaður í mörg ár enn.
