Skoðun

Feneyjanefnd og sjálfsvirðing

Ágúst Þór Árnason skrifar
Eftir fall Berlínarmúrsins ákváðu 18 ríki Evrópuráðsins að koma á fót sérstakri nefnd sem í daglegu tali er nefnd Feneyjanefndin (opinbert heiti „The European Commission for Democracy through Law"). Fram til þessa hefur meginstarfi nefndarinnar falist í því að aðstoða fyrrum kommúnistaríki við endurreisn sína þótt önnur ríki hafi leitað eftir áliti um afmarkaðri atriði.

Nú hefur eftirlits- og stjórnskipunarnefnd Alþingis ákveðið að leita eftir áliti Feneyjanefndarinnar á frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár. Í bréfi formanns, Valgerðar Bjarnadóttur, er óskað álits á þeim ákvæðum frumvarpsins sem lúta að stöðu, verkan og gagnvirkum samskiptum Alþingis, ríkisstjórnar og forseta og auknum möguleikum á þjóðaratkvæðagreiðslum. Að auki er farið fram á að nefndin greini ráðgert kosningafyrirkomulag og áhrif þess á fulltrúalýðræðið.

Að undanförnu hefur ítrekað verið kallað eftir skipulegu mati og greiningu á þeim atriðum sem Feneyjanefndin er nú beðin um álit á. Þegar stjórnlagaráð lauk vinnu sinni var rætt um nauðsyn „álagsprófana" áður en málið kæmi til kasta þingsins. Og nú síðast benti svokölluð lögtækninefnd á að ekki hefði farið fram heildstætt og skipulagt mat á áhrifum stjórnarskrártillagnanna í heild, en slíkt mat kallaði „á þverfaglega vinnu sem hópnum var ekki falin".

Það vekur athygli að þegar Alþingi ákveður loksins að standa fyrir efnislegri úttekt á hugsanlegri framtíðarstjórnarskrá lýðveldisins skuli vera ákveðið að leita til erlendrar sérfræðinganefndar. Sú spurning hlýtur að vakna hvort litið sé svo á af hálfu Alþingis að ekki séu fyrir hendi nauðsynlegar forsendur til að takast á hendur þetta verkefni innanlands. Ef sú er raunin hlýtur það að vera umhugsunarefni fyrir íslenskt háskóla- og fræðasamfélag og raunar Íslendinga sem sjálfstæða þjóð.

Þrátt fyrir þann skamma tíma sem er til stefnu hlýtur það enn að teljast eðlileg krafa að Alþingi láti gera þverfaglega úttekt á því frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár sem nú hefur þegar verið afgreitt frá fyrstu umræðu í nánast algerri þögn fjölmiðla. Slík vinna væri ekki aðeins æskileg með hliðsjón af sjálfsvirðingu Íslendinga heldur myndi einnig stuðla að því að gera aðkomu Feneyjanefndarinnar markvissari og gagnlegri fyrir framhald málsins.




Skoðun

Sjá meira


×