Körfubolti

Pavel og Hlynur öflugir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Anton
Hlynur Bæringsson fór fyrir sínum mönnum þegar að Sundsvall Dragons vann góðan útisigur á Stockholm Eagles í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld, 93-83.

Þá var Pavel Ermolinskij stigahæstur í liði Norrköping sem vann sigur á sterku liði Borås á heimavelli, 99-92.

Hlynur var með tvöfalda tvennu - skoraði sextán stig og tók tólf fráköst auk þess að gefa fimm stoðsendingar.

Hlynur nýtti öll sjö skot sín innan þriggja stiga línunnar og bæði vítaköstin sín þar að auki. Hann klikkaði aðeins á einu skoti á leiknum en það var þriggja stiga skot.

Jakob Sigurðarson náði sér ekki jafn vel á strik en hann skoraði sex stig, tók sex fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Jakob nýtti þrjú af fjórtán skotum sínum utan af velli í leiknum.

Pavel var hársbreidd frá þrefaldri tvennu í sigri Norrköping. Hann var með nítján stig, tíu fráköst og átta stoðsendingar.

Sundsvall er á toppi deildarinnar með 42 stig og Norrköping í fimmta sætinu með 30 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×